top of page
7EB74D69-6D47-4E76-87A6-F0061C1C5489.jpg

UM OKKUR

Sjávarborg er veitingahús staðsett við höfnina á Hvammstanga. Sjávarborg býður upp á fjölbreyttan matseðil allan ársins hring ásamt því að sjá um mötuneyti fyrir Grunnskóla Húnaþings vestra yfir vetrartímann.

 

Húsið var upphaflega byggt sem sláturhús en sá hluti sem hýsir veitingastaðinn var lengst af nýttur sem frystir fyrir Kaupfélag Vestur-Húnvetninga. Fyrir byggingu sláturhússins stóð þar húsið Sjávarborg en af því er nafn veitingastaðarins dregið. Gamla Sjávarborg hefur nú verið fært á annan stað í bænum.

Leitast var við að nýta sem mest þann efnivið sem finna má í umhverfinu annað hvort með beinum hætti eða sem innblástur og er stærsti hluti húsgagna og innréttinga smíðað af heimafólki. Sem dæmi um þetta má nefna barinn sem er steinsteyptur og voru fyllingarefni sótt í fjöruna fyrir neðan húsið og sjá má í yfirborði steypunnar. Ljós í veitingasal eru úr kræklingaflotholtum, stálbobbingar voru nýttir í borðfætur, gúmmístuðpúðar í barstóla, allt efniviður sem lokið hafði fyrra hlutverki en hefur nú öðlast nýtt líf. Að auki voru nýttir gamlir munir úr eigu Kaupfélagsins svo sem pósthillur sem merktar voru bæjunum í sýslunni, kjötkrókar í fatahengi og á suðurvegg eru stórar frostlagnir sem einnig minnir á fyrri notkun rýmisins. Í veitingasalinn var valinn stóllinn Skata eftir Halldór Hjálmarsson húsgangahönnuð sem hann teiknaði árið 1959.

Hönnun staðarins var samstarfsverkefni þar sem margir lögðu til hugmyndir og útfærslur; rekstraraðilar, iðnaðarmenn, auk handverksfólks úr héraði. Arkibúllan arkitektar sá um heildarhönnun staðarins. Marga skrautmuni má finna á staðnum og voru þeir unnir af Sigríði Lárusdóttur og Margréti Sóleyju (M Sól), leirmunir frá Grétu Jósefsdóttur og rennd rekaviðarljós yfir bar af Daníel Karlssyni.

bottom of page